Bréf Vernharðs til Sölva Betúelssonar árið 1934

Uppfært 30.ágúst 2020

Atlastöðum 25.apríl 1934  

Kæri málkunningi. Nú pára ég þér nokkrar línur, en ég get ekki sagt þér neitt í fréttum, nema okkur líður heldur vel, en það er frekar lítið fiskirí en það er nú ekkert að marka því það er alltaf bylur.

Efni er nú þessarra lína að biðja þig að leigja mér hálfa Tunguna til slægna, ég skal borga eftir hana sangjarnlega eins og Sölvi (Andrésson innskot ÁÁ). Ég skal seinna láta á hálft túnið skít á meðan hann dugar á það. Ég vona að þú gerir þetta fyrir mig því ég er alveg slægnalaus hér og þarf að fá slægjur annars staðar að því að mér finnst það vera best og heilnæmast að eiga svo mikið af skepnum sem auðið er.

Og svo fer ég að hætta þessu bulli, ég vona að þú gerir þetta fyrir mig og látir mig vita það sem fyrst hvort þú vilt gjöra svo vel að leiga mér hana og hvað þú munir leigja hana dýra. Vertu svo blessaður og sæll, líði þér alla tíma sem best þess óskar þinn kunningi.

Vernharð Jósepsson.

Bréfið er eftirrit ritað af Jósef Vernharðssyni eftir ljósriti af bréfi föður hans. Þetta lætur lítið yfir sér, en er dæmi um hvernig við getum betur sett hlutina í samhengi  áratugum síðar. Á sama hátt og gestabækur í sumarbústöðum dagsins í dag geta stutt söguna síðar geta bréf genginna skipt miklu. Ég er alls ekki að tala um persónulega hluti, heldur almenna. Tíðarfar, nýbyggingar húsa,  fiskirí í vatni og sjó og svo framvegis. Ef þið hafið svona bréf, ættuð þið að lesa þau í þessu ljósi, og ef þið metið það sem svo að þar væri efni sem erindi kynni að eiga til allra, þá væri vel þegið að fá þetta sent.                            ÁÁ 11. mars 2006

Print Friendly, PDF & Email

One Reply to “Bréf Vernharðs til Sölva Betúelssonar árið 1934”

  1. ……” því ég er alveg slægnalaus hér og þarf að fá slægjur annars staðar af því að mér finnst það vera best og heilnæmast að eiga svo mikið af skepnum sem auðið er “…..

    Er ég einn um þá hugsun – eða minnir þessi texti á persónu Halldórs Laxness, hann Bjart í Sumarhúsum í sögunni um Sjálfstætt fólk!

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA