GÞ: Yfir Bæjarfjall

Uppfært 15.mars 2020

Gönguleiðin yfir Bæjarfjall

Höfundur.: Gunnar Þórðarson

 Við leggjum af stað við brúna yfir Bæjarána undir bænum Brekku og göngum upp svokallaðar Dalbrekkur þar til komið er upp í Bæjardal.  Ágætt útsýni er af dalbrúninni yfir byggðina í Fljóti og gott að átta sig á hinum ýmsu bæjarstæðum, þar sem vel sést hér yfir þau öll.  Niður undan er Skjaldabreiða ofaná Bæjarhjalla og aðeins neðar og utar eru tóftir Geirmundarstaða sem Geirmundur Júlíusson byggði.  Framar er Brekka, bústaður Jósefs Vernharðssonar og heiman við Bæjarána eru tóftir Hjalla, sem Högni Sturluson byggði.

Neðan hjallans sjást vel rústir Júlíusarhúss og Afahúss og framar eru Anitubær, núverandi Atlastaðir og Atlatunga.  Beint niður undan, neðan Bæjarhallans eru Skildirnir, Fremri Skjöldur og Heimri Skjöldur og neðar Melasundið, sem nú eru  uppþornaðir sandflákar.

Við tökum fyrst stefnuna upp Bæjardalinn að Sandvíkurvötnum og heitir Leiti þar sem ekki sést til bæjanna lengur.  Við göngum fram á Sandvíkurfjall, en hér er þverhnípt bjarg niður í fjöru, þar sem fallegt útsýni er yfir hafið og má oft sjá skip sigla hjá enda fjölfarin siglingaleið undan ströndinni.  Uppaf gnæfir Kögur og enn hærra í austri er Beila sem skiptir dalnum í Bæjardal og Krossadal.   Beila heldur um Krossadal í austri en Bæjarfjall í vestri.  Þangað er ferðinni heitið og þegar við göngum fram dalinn er gaman að skoða klettastrýtur sem gnæfa yfir göngumanni upp af dalbotninum.  Áður mátti sjá kross í klettunum og er nafnið þannig til komið.  Krossinn hefur veðrast  og sést ekki lengur en þó má sjá glufur í gegnum klettana.  Sama verður að segja um karl og kerlingu sem áður sáust í klettabrúnunum með naut í bandi, þar sem þau voru að koma úr Rangalanum.

Krossalækur liðast niður dalinn og sameinast Bæjaránni (Nautadalsá) niður við Dalbrekkurnar.  Dalurinn er grösugur og vestan megin í honum er Sjónarhóll, en þaðan er gott útsýni yfir allan dalinn og Sandvíkurvötn.  Leiðin upp á hólinn er stórgrýtt en tiltölulega auðveld samt og þangað örkum við á leið upp á fjallstoppinn.

Héðan er ekki langt eftir upp á Bæjarfjall og er auðveldara að sveigja svolítið í suður þar sem brattara er framar í dalnum.  Þó hér sé mikil urð er nokkuð fast undir fæti og ekkert klifur og því á allra færi að ganga upp.

Þegar upp er komið er aðeins spölkorn fram á brún á Bæjarfjalli þar sem er hreint ótrúlegt útsýni yfir Fljótið.  Vel sést yfir bæjarstæðin á Atlastöðum og út með Atlastaðahlíð.  Kamburinn með Kríuborg og Julluborg blasa við og sjá má hvernig grynningarnar liggja í vatninu með nánast samfeldum eyrum þvert yfir vatnið við Langanes.  Tungumenn kölluð vaðið hér að fara yfir “Á skriðu” og má geta sér til um nafngiftina héðan.  Efst í Fljótinu eru Reyðár sem draga nafn sitt af silungnum sem þar hrygnir, með fallegum grónum eyrum og eru þær eyktamörk Atlastaða og Glúmsstaða.  Jökuldalir sem eru á milli Þorleifsdals og  Fljótaskarðs blasa við, en þeir eru vatnasvæði Reyðár.

Bæjarstæðið að Glúmsstöðum sést vel en þetta var harðbýliskot með litlu undirlendi og of langt frá sjó til að draga þaðan lífsbjörgina, enda oftar en ekki í eyði.  Ekki sést Tröllaskarðið þar sem tröllið Króknefur fór um með heimasætuna er hann nam hana á brott frá Glúmstöðum, að undirlagi móður sinnar Glennu er, vildi hana fyrir tengdadóttur.  Yfir Tröllaskarð er farið yfir í Bjarnadal á leið til  Látra í Aðalvík og fóru bændur oft þaðan í Fljótið til að veiða silung og var hann borin sömu leið heim.

Glúmsstaðafoss skartar sínu fegursta héðan séð og Faxeyrin blasir við iðagræn, ef komið er hér að sumarlagi.  Þar vex stórgerð flæðistör sem bylgjast eins og fax á hesti og var eftirsótt, enda sóttu bændur frá Atlastöðum í þau þegar Glúmstaðir voru í eyði. Vel sést upp Glúmstaðadal og upp á Háuheiði sem liggur til Hesteyrar.

Utar við Fljótið og blasir við beint á móti, stóð bærinn Tunga.  Þar var síðasti ábúandi Vernharður Jósepsson, áður en hann flutti að Geirmundarstöðum við Atlastaði, skömmu fyrir brottflutning bænda úr Fljóti. Héðan séð er nafngiftin augljós enda liggur bæjarstæðið þar sem Tunguáin hvíslast en rennur saman neðar, og myndar tungu sem bærinn hefur staðið.  Sjást greinleg ummerki búskapar þó Tunga hafi legið í eyði síðan 1944.

Ingunarklettar eru ofar og utar en það þótti manndómsraun hjá krökkum áður að geta gengið undir  klettana og síðar ofan þeirra.  Klettahnjúkar miklir bera við loft ofan við Ingunarkletta og heita þeir Kóngar, en innan við dalsöxlina er Nónfell sem  liggur neðan við fjallabrúnir og ofan þess er hvilft sem heitir Rangali.  Brekkan upp frá bænum heitir Langholt.

Af holtinu byrja svo brekkurnar upp Kóngahlíð og heitir sú neðsta Langholtsbrekka og svo er efst í hlíðinni löng og há brekka sem heitir Klifbrekka.  Tvær kvosir þarna eru oft kallaðar Neðri-kvos og Efri-kvos.  Þá tekur við lítil brekka sem heitir Kvíildisbrekka, en lengra gekk kvífé ekki, og þar ofar er Rangalabrekka sem liggur upp í Rangalann.  Upp úr Rangalanum er stutt brekka sem heitir Kjölbrekka og þar upp af er Tungukjölur.  Vel má greina götuna héðan séð þar sem hún liðast upp á toppinn á Nóngilsfjalli.

Utar tekur við Hvestan sem heldur við Fljótavík í suðri og skammt fyrir landi eru Hvestusker og framan á fjallinu mót norðvestri er stór lægð sem heitir Hvestuskál með litlu stöðuvatni sem Hvestuvatn heitir.

Eftir þessa miklu sjónarveislu er lagt af stað og gengið norður Bæjarfjallið.  Ekki er bratt niður í Rangalann sem er hliðardalur úr Svínadal, en leggjabrjótur hinn versti í grófri skriðuurð, og rétt að fóta sig varlega. Rangalinn er dalkimi sem gengur inn í Bæjarfjallið.  Að austan heldur fjallstindur um hann sem heitir Tafla.

Á milli Töflu og Dagmálahorns sem heldur um Svínadal í austri, eru Breiðuskörð, en þaðan er gönguleið í Almenninga vestri.  Bratta skriðu er að fara sunnan að en klettabelti fyrir norðan, og þarf að fara rétt þar niður með því að ganga skarðið austast upp úr Svínadalnum.  Þegar yfir er komið er fljótlega komið niður á syllu Almennings megin og er rétt að fylgja henni til vesturs þangað til auðveld leið niður er fundin.

Auðveld leið er niður Svínadalinn sem er grösugur, og gott að fylgja ánni niður að Svínárholti þar sem surtabrandsnámur eru.  Heima við ána eru Grafarholt þar sem mótekja Atlastaðabænda var og sjást þess greinileg merki.

Héðan liggur leiðin heim að Atlastöðum og er bent á aðra leiðarlýsingu, Glúmsstaðir – Bæjarnes fyrir þá leið.

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA