Föstudagspistill 21.mars 2014

Í vikunni sem er að líða var ég að skoða lífshlaup Geirmundar Júlíussonar og Guðmundu Regínu Sigurðardóttur á internetinu.  Skoðið: Fólk > Geirmundur Júlíusson og Guðmunda Regína Sigurðardóttir – eða einfaldara – skoðið þetta.  Vinsamlega sendið upplýsingar um það sem mætti bæta við.

Í tengslum við undirbúning ættarmóts á árinu 1996, bað Geirmundur Júlíusson Snorra Grímsson um að koma til sín og skrifa frásögn, sem hann vildi að lesin yrði á niðjamóti þá um sumarið. Frásögnin var áður birt á gömlu útgáfunni af heimasíðunni  – með góðfúslegu leyfi Snorra. Frásögnin er um það þegar farið var frá Atlastöðum til Rekavíkur bak Höfn til að sækja bát og honum svo róið í Fljót.

Eftir að Snorri hafði skráð söguna kom hann með þetta frá eigin brjósti:  Þess má geta til gamans og fróðleiks, að leiðin, sem þeir félagar fóru gangandi og á skíðum á tæpum 5 klukkutímum, er rúmir 25 km og ferðamenn fara hana gjarnan fótgangandi á sumrin sem tvær dagleiðir. Er þá leiðin úr Fljóti að Búðum í Hlöðuvík farin á 8 – 10 tímum, en þaðan til Rekavíkur á 3 – 6 tímum. (Þá eru menn að vísu að skoða landið, en ekki að flýta sér um slóðir sem þeir gjörþekkja.) Auk þess þarf á fyrri hluta leiðarinnar að fara tvívegis upp í um 400 m hæð og lækka sig um rúma 100 m í millitíðinni, en Skálakambur og Atlaskarð eru um 300 m há en dalbotninn neðan Atlaskarðs, Hælavíkurmegin, rúmum 100 m lægri. Sjóleiðin er ámóta löng, eða nálægt 15 sjómílum. Hraði þeirra hefur því verið rúmir 5 km á klst á landi, sem telst góður gönguhraði á nær sléttu landi, hvað þá svo bröttu og mishæðóttu sem hér um ræðir. Hraðinn á sjó hefur verið um 2½ sjóm. á klst. í róðri.

 

 

 

 

EnglishUSA