GÞ: Grundarendi að Sygnakleif

Gönguleiðin frá Grundarenda að Sygnakleif

Höfundur.: Gunnar Þórðarson

 Við Grundarenda sem er heimst í Atlastaðahlíð, voru áður fyrr fjárhús Atlastaðabænda og sjást tóftir þeirra greinilega.  Ástæða fyrir staðsetningu svo fjarri bænum var fjörubeit sem oft var nauðsynleg þegar hart var í ári og illa gekk að þurrka hey til vetrarins.  Snjóflóð mun hafa fallið á fjárhúsin og þau ekki verið endurbyggð eftir það.  Þetta gerðist fyrir tíð síðustu bænda á Atlastöðum í Fljóti.  Upp af fjárhúsatóftunum eru tvö urðarnef sem heita Efri- og Neðri-Hnaus.  Grasivaxnar lautir eru beggja vegna við hnausana og býr huldufólk í þeim.

 Þar sem skýli Slysavarnafélagsins stendur nú voru naust Júlíusar Geirmundssonar og aðeins lengra við stóra steina, var naust Jóseps Hermanssonar, en steinarnir veittu töluvert skjól fyrir sjávaröldunni.  Naustin voru venjulega kölluð krár og þar voru bátar settir og fiskur verkaður.  Seinna fluttu menn naustin utar í hlíðina þar sem betra skjól var fyrir sjávaröldunni, en þau munu aðeins hafa verið notuð síðustu tíu ár búsetu í víkinni.

Áður höfðu veiðar eingöngu verið stundaðar á sumrin en að sögn Högna Sturlusonar var töluvert meira róið til fiskjar seinni árin, enda mun sjósókn og saltverkun hafa gengið fyrir búskap.  Þá byrjuðu vertíðir í apríl og róið fram eftir hausti eins og hægt var síðustu árin.  Ástæðan fyrir flutning kránna var einmitt sú að vor og haust, þegar norðaustan vindátt er staðbundin, er mun betra skjól utar undir Atlastaðahlíð heldur en í krikanum við Grundarenda.

Við hækkandi verð á salfiski í kjölfar stríðsins hafa áherslur breyst hjá bændum í Fljóti.  Meiri áhersla var lögð á fiskveiðar og salfiskvinnslu á kostnað fjárbúskapar, sem hefur meira orðið til að sinna þörfum heimamanna.  Tekjur af fiskveiðum og verkun hafa einfaldlega verið mun meiri en af fjárbúskap. Naustin stóðu um miðja vegu undir Atlastaðahlíðinni, um hundrað metrum utan við Klettabelti, sem er hjalli ofar í hlíðinni, og er gengið eftir stórgrýttri fjörunni út víkina. Greinilegar tóftir af þremur samliggjandi naustum eru ofan við sjávarkambinn.  Einnig má merkja leifar af gangspilum sem notuð voru til að setja bátana.

Mikið er af kúskel í naustunum en hún var veidd í beitu.  Þegar þetta er ritað eru greinilegar leifar af bátnum Fræg sem var kúfiskveiðibátur bænda í fljóti og var gerður út sameiginlega af þeim.  Vegna stærðar bátsins þurfti fimm til sex fíleflda karlmenn til að setja hann og því var samvinna nauðsynleg við útgerðina.  Sölvey Jósefsdóttir minnist kúfiskveiðanna og segir að skelin hafi verið veidd til beitar eftir þörfum.  Venjulega var farið vikulega undir Hvestuna til veiðanna, og tóku þá allir útvegsbændurnir sig saman um þær.

Herborg Vernharðsdóttir minnist þess sem krakki að hafa leikið sér mikið með kúskeljar.  Sérstaklega var það leikur sem kallaður var “kappi” en hann byggðist á því að velja sem sterkustu skelina og síðan kom næsti og barði sinni skel ofaná hana.  Tækist honum að brjóta “kappann” varð sú skel að “kappa” og leikurinn hélt á með því að hinir í leiknum börðu sínum skeljum ofaná “kappann”

Helga Hansdóttir man greinilega eftir því að fara ásamt jafnaldra sínum, Guðmundi Júlíussyni, með mat til verkallanna þegar þeir komu af sjónum.  Þetta mun hafa verið í kránum við Grundarenda enda Guðmundur farinn að róa með föður sínum þegar verin fluttust utar í hlíðina.  Hún minnist þess að rogast sem krakki með graut í fötu, fisk á járndiskum og kaffi á flösku sem stungið var í hosu til að halda því heitu.  Að sögn Högna sá Guðrún Jónsdóttir um að færa vermönnum mat síðustu árin.  Ekki tíðkaðist að menn tækju með sér á sjóinn annað en mysu, og voru því glorsoltnir þegar komið var að landi eftir erfiða veiðiferð, áttu menn þá eftir að ganga frá aflanum.

Sjósókn var ávallt mikilvæg fyrir bændur í Fljóti og á tíma Vernharðs Jósepssonar í Tungu, var um langan veg að fara til róðra.  Oft gisti hann þá á Atlastöðum enda erfið leið að fara yfir ósinn heim í Tungu.

Óhætt er að fullyrða að sjávarfangið gaf bændum meira í aðra hönd en landbúnaður, enda harðbýlt í Fljóti með stuttu sumri og miklum óþerrum. Sjósóknin hefur þó verið torsótt enda lendingaskilyrði með erfiðasta móti, og ómöguleg í hvassri vestanátt.  Ein af ástæðum þess að fimm bændur fluttu samtímis úr víkinni 1946 hefur sennilega verið sú að ákvörðun yngri mannanna að flytja, sem gerði hinum, sem eftir hefðu orðið, ómögulegt að setja kúfiskbátinn.

Að sögn Högna Sturlusonar voru veiðibátarnir smá kænur, af augljósri ástæðu, þar sem menn réðu ekki við að lenda stærri bátum nema margir saman.  Aðeins voru tveir menn á hverri skektu og réði það stærð bátanna ásamt aðstæðum í Fljóti.  Síðustu þrjú árin sem Geirmundur Júlíusson var búsettur í víkinni réru þeir Högni saman og fiskuðu eitt árið það mikið af úr urðu um 24 tonn af saltfiski.  Júlíus réri þá við Guðmund son sinn en feðgarnir Finnbogi og Jósep gerðu út saman.

Högni minnist sjóferðar með Geirmundi þar sem línan var lögð undir Hvestunni.  Veiði var góð og skektan komin í slyðrarann að aftan.  Miðrúmið var orðið fullt af þorski og hálsrúmið hálft af steinbít.  Jafnframt var búið að seila töluvert magn af þorski á skutinn en það var oft gert þegar vel fiskaðist, enda báru bátarnir aflann ekki öðruvísi.  Það var byrjað að hvessa og skall á með norðaustan hvassviðri.  Þegar síðasti balinn var dreginn var orðið hvasst og byrjað að brjóta yfir lunninguna á bátnum.  Geirmundur skipaði nú Högna að henda öllum steinbítnum úr miðrúminu í sjóinn.  Þegar búið var að draga línuna minnist Högni þess að hann fleygði henni aftur í bátinn til Geirmundar, og við það gekk hnýfillinn á kaf í ölduna.  Geirmundur greip þá aftur fyrir skutinn og sleppti fiskinum sem var seilaður og flaut hann um allan sjó.  En þeim tókst að komast heilum á höldnu í land og koma bátum upp á kambinn við krána.

Að sögn Sölveyjar beittu unglingarnir línuna um morguninn, um þrjá bala á hvern bát en um sjö til tíu lóðir voru í hverjum bala.  Róið var með línuna eldsnemma morguninn eftir og hún lögð.  Ýmist var legið yfir baujunni eða komið í land, eftir því hversu langt var róið.  Uppúr hádeginu var hún síðan dregin og bátar og afli hífður upp á kamb seinnipart dags.  Þá hófst aðgerð og síðan var fiskurinn flattur og saltaður í stæður.  Ef lúða eða koli veiddust var hann tekin heim og steiktur á pönnu en steinbíturinn var flakaður og saltaður, eða gúlaður, og hengdur á trönur.

Sölvey minnist þess þegar saltaður steinbítur var útvatnaður í Bæjaránni áður en hann var soðin heima í bæ.  Engir hjallar voru til að þurrka harðfisk í Fljóti en þorskhausar voru verkaðir til heimilinsnota á trönum.  Lifrin var hreinsuð og lögð í tunnur og gefin skepnum um veturinn en kúttmaginn var oft hirtur til manneldis.

Eitt sinn rétt fyrir jól fóru Högni og Geirmundur yfir á almenninga að sækja reka en Júlíus og Guðmundur réru til fiskjar.  Veiði var góð enda veður með besta móti.  Á jóladag var víkin eins og heiðatjörn og þegar annar dagur jóla rann upp var sama uppi á teningnum.  Þá vildi Júlíus róa en Guðmundi  þótti dagurinn vera heilagur. Högni, sem þá var fluttur heim á Atlastaði, fór þá út eftir til Geirmundar og spurði hvort hann ætlaði að róa.  “Á heilögum degi” sagði Geirmundur og neitaði því.  Högni fór þá heim aftur og sagði “Jæja, ég er til í að fara á sjóinn”   Og varð úr að þeir hrintu bát úr vör og lögðu línuna.  Ekki tóku æðri máttarvöld uppátækið illa upp og fiskaðist þeim vel.  Fylltu þeir heilar þrjár tunnur af saltfisk sem gaf þeim um 500 krónur í aðra hönd, sem þótti mikið í þá daga.

Högni minnist þess að Júlíus var vanur að fara í hverjum janúarmánuði yfir að Látrum og til Miðvíkur.  Þetta var hans andlega upplyfting að hitta karlana, svo sem Frigga Magnúsar, til að spjalla og segja sögur, enda átti hann sínar rætur á þessum slóðum.  Eitt sinn var blíðskapar veður þessa viku og réru Högni og Geirmundur upp á hvern dag og lágu bara fyrir föstu á baujuvaktinni.  Þá leið Júlíusi illa þegar hann kom til baka, að hafa misst af þessari veiði sem gaf mjög vel í aðra hönd.

Sagan segir að nokkur lík hafi rekið á fjöru í Fljóti um stríðsárin.  Voru þau grafin út við naust en eftir stríðið komu bretarnir og sóttu þau til greftrunar í vígðri mold.  Fyrir kom að annað stríðsgóss ræki að landi og eins telja menn sig hafa orðið varir við ljósglampa þegar sjóorrustan við Bismark fór fram, sennilega þegar Hood sprakk í loft upp.  Annars fylgdust menn lítið með stríðinu, allavega var yngra fólkið ekki meðvitað um hvað var að gerast enda ekki útvarp í Fljóti fyrr en undir það síðasta þegar rafmagn kemur til sögunnar.

Áfram er gengið út fjöru þar til komið er í Skerjavík og er ágætt að hækka sig upp á sjávarkambinn og sjá vel yfir víkina sem þekkist af skeri í henni miðri.  Ofar í hlíðinni er grasivaxin skál er nefnist Kögurskál.  Fljótlega er komið að Kænuvík og er í senn hrikalegt og fallegt að horfa yfir klettana og skerin sem heita Lendingasker.  Hér erum við komin að lokum Atlastaðahlíðar og við tekur Kögurhlíð.  Ströndin sveigir hér í norður og opnast fyrir Dumbshafi.  Hrikaleg átök haföldunnar við einn af útvörðum landsins er óvíða augljósari en hér.  Gaman er að horfa á hin ýmsu berglög í snarbrattri hlíðinni en á skiptast mjúkur sandsteinn, kristallaður, og eitilharður.Greinilegt lag af rauðsteini liggur neðst undir sem eru gamlar jarðvegsleifar sem hraun hefur runnið yfir fyrir milljónum ára.  Ennfremur má sjá hina ýmsu tegundir bergs þar sem hrunið hefur úr margbreytilegum hraunlögum fjallsins niður á klettasyllur við sjávarborðið.   Útvörðurinn hér heitir Engelskur sem er klettur í sjó fram og afmarkar Kænuvík bæjarmegin.   Engelskur var notaður af Atlastaðabændum til að marka sjávarföll heiman frá bænum.

Gott er að lækka sig aftur niður á klettahjallann meðfram sjónum og stöndum við þá á svokölluðu Kögurnefi eða Klömp.  Stórkostlegt útsýni er yfir klettamyndir eftir ágengni sjávarins.  Mikil gljúfur ganga inn i ströndina og klettasker skammt frá landi.  Tiltölulega auðveld leið er eftir klettunum undir Kögurhlíðinni að Kögurtánni.  Þar útaf er svokölluð Kögurröst og þó hún þyki ekki eins illvíg og Straumnesröstin þá nær hún yfir mun lengra svæði og tekur því ekki eins fljótt af.  Þórður Júlíusson minnist þess þegar hann réri með föður sínum að oft hafi verið róið djarft fyrir Kögur, þegar vont var í sjóinn.  Gátu menn losnað við verstu röstina með því að fara upp í harða grjóti, þar fyrir en utar ólmast hafaldan þegar austurfallið ýfir upp og tryllir norð-austan ölduna.

Nú erum við komin að Kagravík og hér við svokölluð Grjótleiti þarf á einum stað að fara upp í hlíðina til að komast fyrir botninn á klettavík sem skagar inn í ströndina.  Nú nálgumst við Sandvík en þar tekur við stórgrýtt fjara af klettabeltinu.  Fyrir miðri víkinni er sker sem heitir Sandvíkursker.  Upp yfir trónir Beila eins og oddmjó strýta upp í loftið.  Hér eru berglögin augljósari enda eins og skorið væri á Sandvíkurfjallið með hnífi.

Ofan skriðunnar undir klettabelti eru surtabrandslög, allt að þriggja metra þykk.  Surtabrandur myndast þegar hraun rennur yfir skóg og viðurinn kolast en getur ekki brunnið vegna súrefnisskorts.  Greinilegt er á þessum surtabrandi að hér hafa ekki verið neinar hríslur heldur myndalegir trjábolir sem orðið hafa hrauneðjunni að bráð fyrir löngu síðan. Atlastaðabændur fóru hér í lágdauðu og klifu upp í klettana og muldu niður í fjöruna surtabrandi með járnköllum og sigldu með heim til að nota fyrir brenni.  Þetta sama lag finnst einnig í Svínadal en mikið var farið að ganga á þær námur, allavega það sem nýtanlegt var og hægt var að komast að.  Þorvaldur Thoroddsen lýsir því í ferðabók sinni (Ferðasögur frá Vestfjörðum sumarið 1886, II bindi, Þorvaldur Thoroddsen, Snæbjörn Jónsson & CO. H.F. önnur útgáfa 1959, s. 160)  þegar hann seint á nítjándu öld ferðaðist um Hornstrandir, kleif upp í Sandvíkurfjall til að rannsaka surtabrandinn sem hann taldi afbragðs góðan.  Ekki taldi hann heiglum hent að klífa upp í námurnar og taldi sig gott efni í fygling að ráða við klifrið.

Nú erum við komin að Sygnahleif sem áður hét Sygnakleif, en þar handan við braut Vébjörn sygnakappi skip sitt en komst ásamt áhöfn sinni yfir ófæruna og í Fljótið þar sem Atli þræll gætti bús fyrir húsbónda sinn Geirmund Heljaskinn. Tók Atli við áhöfninni allan veturinn og bað þau engu launa vistina því ekki mundi Geirmund mat vanta. Þegar Geirmundur og Atli fundust spurði Geirmundur,  “hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans”   “Því ,,svaraði Atli að það mundi uppi meðan Ísland væri byggt, hversu mikils háttar sá maður muni verið hafa, að einn hans þræll þorði að gera slíkt að honum forspurðum”  Geirmundur svaraði honum, að fyrir tiltæki þetta skyldi hann þiggja frelsi og bú það, er hann varðveitti.(Landnáma, (Hauksbók), s. 189)

Fyrir þá sem ekki eru lofthræddir er verðugt verkefni að leika eftir Vébirni og áhöfn hans og fara yfir Syngahleif, en fyrir hina er gott að setjast í klettana suður af víkinni og njóta útsýnisins á meðan þeir velta fyrir sér hinum fleygu orðum Atla og þeirri sálfræði og mannþekkingu sem þau lýsa.

Uppfært 18.júní 2007

 

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA