Pistill 13.mars 2015

Væri rétt að huga að þessu…. ?

Umhverfis- og  framkvæmdarnefnd Ísafjarðarbæjar fjallar þessa mánuðina – m.a. á fundi Nr. 8, þann  29.janúar 2015, með málsnúmerinu  2014-10-0013  um umsókn um virkjun bæjarlæksins á Hesteyri. Ferlið fór í gang, eins og sést á málsnúmerinu í október 2014. 

Skipulags- og mannvirkjanefnd er einnig með þetta málefni til umfjöllunar og skal bennt á fundargerð frá fundi 421 frá 22.október 2014 undir lið 2.

Allt er þetta athyglisvert í ljósi þess að ekki fæst betur séð en að þrátt fyrir það að þarna sé verið að sækja um heimild til framkvæmda, sem ekki var gert ráð fyrir í skipulagi eftir því sem ég best veit, tekur nefndin vel í þetta.

Það hljóta allir að sjá jákvæða hlið á þessu máli þegar kemur að því að draga úr brennslu jarðefna við framleiðslu á hita í sumarhúsum í friðlandinu, að því gefnu að ekki sjáist teljandi jarðrask að ferlinu loknu. Bændablaðið fjallaði nýlega um örvirkjanir og bb.is sér ástæðu til að vitna í þá grein – með mynd af Læknishúsinu á Hesteyri. Einnig fjallaði visir.is um málið og í umræðum undir þeirri umfjöllun kemur fram að væntanleg virkjun verði ekki sú fyrsta þarna – þar hafi verið virkjað áður. Þá er ljóst, að fordæmi eru komin fyrir því að hægt sé að sækja um fjárhagsstyrki, teljist svæði til ferðamannastaða (sbr. lið 19 í þessu skjali) – og er það ekki einmitt það sem á við um allt Friðland Hornstranda?

Þegar við hugsum um “okkar svæði” – Fljótavík, þar sem við horfum nú fram á minnkandi framboð af rekaviði, fæ ég ekki betur séð en að bústaðaeigendur ættu að fylgjast vandlega með þessu máli, og styðja þessar framkvæmdir á Hesteyri,  enda hlýtur ferlið að vera fordæmisgefandi fyrir allt Friðland Hornstranda, og ekki fara opinber stjórnkerfi að mismuna neinum.

Ásgeir

PS: Það er hægt að finna margt og mikið lesefni um smávirkjanir – t.d. þessa grein, sem þið gætuð lesið sem skemmtilestur

EnglishUSA