28.nóv. 2014 : Myndir? Hvaða myndir?

Það tók sinn tíma, en nú er ég að ná tökum á  því að bæta myndum á síðuna. Það fylgir því þó handavinna, og ýmislegt sem þarf að gera annað en að henda myndum inn. Meðal þess sem þyrfti helst að gera er að setja upplýsingar sem allir geta lesið, inn á myndirnar. Ekki síður þarf að skrá helstu stikkorð, “á bak við myndrnar”, fyrir sérstök forrit sem lesa þar – og fyrir fólk sem á einhvern hátt á í erfiðleikum með að lesa – og þá líka fyrir það sem les allra mest í veröldinni, –  leitarvélar eins og Google.

Þetta geri ég ekki allt í einu – og sem betur fer er löggjafinn ekki orðinn þannig hér, eins og mun vera í Ameríku, að þar er hægt að sekta fyrir að sleppa því að setja réttar upplýsingar á bakvið mydir.

Ég á margt ólært í því hvernig eigi að setja myndirnar upp, og eins hvernig ég á að nefna einstaka myndahópa. Í dag birti ég myndir sem ég var áður búinn að birta, nefninlega frá yfirflugi TF-VIK  yfir Fljótavík þann 30. apríl í vor. Nú eru þær bara komnar á réttan stað.

Þar með eru tveir hópar af myndum undir flipanum Myndir. Ég reyni að gefa fyrsta hluta þess nafns sem ég vel á myndahópinn augljósa skírskotun í hvenær þær voru teknar. Þannig vísar 2014-04 til þess að myndahópurinn var tekinn í apríl 2014 og  2012-07 til júlí 2012.

En – ég ætla ekki að einoka myndirnar – þvert á móti. Nú auglýsi ég eftir myndum frá ykkur til birtingar.  Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að senda mikinn fjölda af stórum myndum í einu með tölvupósti, og má því vera að þið ættuð að senda slíkt sem “brennda” diska.

Það væri sérstaklega spennandi að fá – ef þið vitið um – gamlar myndir úr Fljótavík. Ég hef þá hugsað mér að búa til myndasafn yfir myndir frá 1968 og fyrr – sem sagt frá því áður en sumarhúsið að Atlastöðum var byggt.

Athugið að nú er líka komið eitthvað inn á flipann Myndir þarna efst uppi. Skoðið það líka – og um að gera ef þið vitið um efni/myndir sem væri gaman að tengja inn þarna.

En – koma svo. Vinsamlega sendið síðunni eitthvað af myndum.

Ásgeir

EnglishUSA