Telur Umhverfisstofnun að ríkið eigi jarðirnar á Hornströndum?

„Stjórnunar- og verndaráætlun“ Umhverfisstofnunar vegna friðlandsins á Hornströndum var birt 15.febrúar 2019, og er ætlað að gilda fyrir 10 ára tímabil – eða frá upphafi árs 2019 til loka árs 2028. Áætlunin er upp á 50 blaðsíður, og tekur á mörgum málum. Á blaðsíðu 8 er listi yfir þá sem skipuðu samstarfshópinn sem vann að stefnumótuninni, og má telja að „heimamenn“…………..……..  hefðu átt að hafa haft möguleika á að hafa veruleg áhrif á útkomuna. Reyndin er þó vafalaust sú að fagfólk Umhverfisstofnunar hefur ráðið mestu, og mikið hefur verið byggt á eldri gögnum og gögnum frá öðrum friðlöndum.

Í nóvember 2017 voru haldnir opnir fundir um stefnumótunina, í Reykjavík og á Ísafirði, og mættu um 50 mans á hvorn fund. Engar fundargerðir virðast hafa komið frá fundunum, og því ekki ljóst hvort eitthvað skilaði sér þaðan í lokaútgáfuna. En fundirnir voru haldnir – og hvatt var til þess að fundarmenn myndu senda athugasemdir varðandi drögin. Má vera að báðir aðilar í svona málum mættu taka sig á. Yfirvöld mættu kynna málin betur, og bæta mætti upplýsingagjöf frá nefndarmönnum til skjólstæðinga.

Tilviljun varð til þess að þessi heimasíða, benti á miðju sumri 2018 á að komið væri að uppgefnum lokafresti, til að skila athugasemdum við drögin. Samtímis var bent á að athyglisvert væri að Umhverfisstofnun færi fram á að athugasemdum yrði skilað á miðjum sumarleyfistíma – einmitt þegar stór hluti landeigenda í friðlandinu var utan alfararleiðar – í friðlandinu, og án tengsla við umheiminn. Tímasetningin ein, er merkileg í ljósi þess hversu margir „heimamenn“ voru í nefndinni og hefðu átt að benda á þetta.

 Það er athyglisvert að sjá viðbröðg fólks  – einkum hagsmunaraðila sem eru með rekstur sem byggir  að einhverju á dvöl í friðlandi Hornstranda. Sameiginleg með mörgum er að þeir hafa ekki haft  hugmynd um hvað var í gangi eða hvert stefndi með lokaútgáfu skjalsins.

Enginn fékk að koma með umsögn við lokaútgáfu skjalsins.

Nú má vera, að hagsmunaaðilar geti litið svolítið í eigin barm. Þeir hafa e.t.v. ekki allir kafað nógu vel ofan í drögin – þ.e.a.s.  þeir sem þó vissu um drögin – því það sem mest er gagnrýnt – var flest komið fram á miðju ári 2018.

Hitt er svo annað – að það stendur ekkert í lögum um að hagsmunaaðilar skuli hafa samráð við Umhverfisstofnun. Hins vegar stendur í lögum nr. 60/2013 ,  81.gr, 3. málsgrein:

[Stjórnunar- og verndaráætlun] 1)skal gerð í samvinnu við eigendur svæðisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, viðkomandi sveitarstjórnir og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.

Það er ekki laust við að maður haldi að þeir sem vinni hjá Umhverfisstofnun geri sér enga grein fyrir því hversu hátt hlutfall af friðlandi Hornstranda er í einkaeign – og það er eins og talið sé óþarft að hafa samráð við landeigendur.

Augljóslega telja margir hagsmunaaðilar sig svikna um samráð frá opinberri stofnun – og er þá nema von að þeim finnist merkilegt að þeir þurfi að framfylgja því sem fram kemur í „Stjórnunar- og verndaráætluninni“ – ef Umhverfisstofnun fylgir ekki lögum?

Sjálfur sendi ég athugasemd við drögin – en fékk enga staðfestingu á að hún  hefði verið móttekin,  og þá síður um efnislega meðferð.  Þetta finnst mér ekki sæma hjá opinberri stofnun – svona til að orða það pent. 

Vestfjarðastofa hefur boðað til fundar miðvikudaginn 27. febrúar 2019 á Ísafirði með ferðaþjónustuaðilum.  Af hverju fá landeigendur ekki að mæta líka?

Eftir standa þau skilaboð til landeigenda í Sléttuhreppi, að ef svona mikil ósátt ríkir um áætlunina – hvað verður þá með Þjóðlendumálin / Óbyggðanefnd ?

EnglishUSA