Uppfært 1. ágúst 2023

Erling Jóhannesson (flugmaður og flugvirki) segir frá flugóhappi er vél hans hlekktist á í Fljótavík í júlí 1964. Auk Erlings, er síðan gerð út frá samskiptum við Guðbjörn Charlesson og þá bræður Hálfdán og Hörð Ingólfssyni. Síðan verður hugsanlega uppfærð og er enn í vinnslu

Ferðin í Fljótavík var farin seint í júlí 1964 til að skoða landið og við tókum með okkur veiðistangir til að ná í nokkra fiska, ef svo bæri undir. Ég man ekki nafnið á manninum sem fór með mér, en mig minnir að hann hafi verið prentari.

Upplýsingarnar sem ég hafði um lendingarstaði í Fljótavík voru frá Sveini Eiríkssyni (Patton), en hann hafði farið margar ferðir í Fljótavík og þekkti vel til. Hann benti á að stundum væri sandurinn ofan fjöru góður, en einnig að það væri slétt gras- og mosagróið svæði ofan við fjörubakkann norðan við ósinn. Ég valdi að lenda þar. Fyrir flugtakið var þetta svæði bæði of stutt og of þungt vegna gróðursins, því fór sem fór. Vélin seig niður á framendann á fjörusandinum. Við fórum úr vélinni og skoðuðum aðstæður og fórum að pæla í hvað væri til bragðs að taka.

Þarna voru nú engir snjallsímar og ekkert samband við umheiminn. Ég hafði beðið Guðbjörn Charlesson um að fylgjast með að við kæmum til baka.

Nú. Það er nú svo að þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst og svo var þarna. Það birtust nokkrir ungir menn—líklega pabbi þinn og fleiri—og hjálpuðu okkur við að rétta vélina við.

Vélin var nokkuð skemmd. Annað blað loftskrúfunnar var skemmt. Vinstra aðalhjól var loftlaust og vinstri bremsa var skemmd. Þannig að það var ljóst að það þyrfti að fá varahluti úr Reykjavík.

Ég reiknaði með að Guðbjörn Charlesson kæmi í Fljótavík þegar hann saknaði okkar, sem hann og gerði.

Við skrifuðum skilaboð í sandinn til að vera tilbúnir. Guðbjörn Carlesson kom og flaug nokkra hringi yfir Fljótavíkinni og fór svo til baka til Ísafjarðar og hafði samband við Helga Jónsson, sem kom á TF-AIB C-140 og lenti á sandinum. Ég fór síðan með Helga yfir til Ísafjarðar. Helgi var alger snillingur á C-140 og það hefðu ekki margir leikið þetta eftir.

Frá Ísafirði fór ég, Helgi og Guðbjörn til Reykjavíkur á TF-ELL Piper Apachie til að ná í varahluti, sem þurfti að finna á ýmsum stöðum ásamt verkfærum. Þá var flogið aftur til Ísafjarðar og Helgi flaug með mig og dótið í Fljótavík.

Það tók ekki langan tíma fyrir mig að gera vélina flughæfa. Ungu mennirnir sem komu til okkar voru enn á staðnum og hjálpuðu t.d. við að lyfta vélinni til að koma hjólinu á.

Síðan var ákveðið að ég tæki verkfærin og dótið, en Helgi þann sem var með mér í vélinni.

Ég tók á loft í fjörunni, sem gekk vel og Helgi kom á eftir á TF-AIB.
Veðrið var alveg einstakt allann tímann. Þegar við komum til Ísafjarðar bauð Guðbjörn Charlesson 3 svöngum mönnum í mat.

Mynd úr grein í Morgunblaðinu 16. ágúst 1988, á bls. 18

Guðbjörn Charlesson á Ísafirði (f. 1938) staðfestir í viðtali við Hörð Ingólfsson, að Erling bað hann um að svipast um eftir TF-KAM, ef vélin skilaði sér ekki á umræddum tíma. “Bjössi” , eins og heimamenn kalla hann, flaug til Fljótavíkur, sá mennina, og sneri við svo búið til Ísafjarðar. Hann man ekki á hvaða vél hann var, en hún gat ekki lent í Fljóti.

Á Ísafirði tókst Bjössa að ná talstöðvarsambandi við Erling í Fljóti og kom þá í ljós að hann átti vara skrúfu á vélina fyrir sunnan (í Fljótshlíð) og Bjössi flaug suður og sótti hana. Hann íhugaði að kasta skrúfuni úr vélini yfir Fljótavík en treysti sér ekki til þess þegar á reyndi enda var hann einn um borð. Lítið grín að standa í því. Snéri því aftur frá og fór á Ísafjörð .

Bjössi sagðist hafa orðið mjög hissa og undrandi þegar Erling kom fljúgandi á vélinni til Ísafjarðar – með viðgert hjól og afar sérstæða bráðabirgða viðgerð á skrúfunni, sem hafði verið límd með límbandi (Segir Bjössi) og hugsanlega (óstaðfest) trélími. Skipt var um skrúfu á Ísafirði og flogið suður.

Í samtali við Bjössa kom fram að búið var að stika merkingar fyrir lendingarstað meðfram Drápslæk. Hann vissi ekki hver stóð fyrir merkinguni en telur líklegt að Patton (Sveinn)  hafi verið hvatamaður og líklega fyrstur til að lenda í Fljóti á C180. Mikill fiskur hefur verið líklegasti togkrafturinn. Ekki hafa það verið bláberin eða blágresið.


Árið 1964 stóðu íbúðarhús Jósefs og Júlíusar. Björgunarskýlið var reist 1959. Vitað er að góðri talstöð var komið fyrir þar 1965. Sú var því ekki til taks 1964, en vera má að önnur stöð hafi verið þar fyrir, eða að heimamenn sem voru þarna í víkini hafi verið með miðbylgjustöð tengda við rafgeymi. Skoðið Tímalínuna fyrir þessi ár.

Hvernig fá menn “flugdellu”. Það væri fróðlegt að komast að því. Hér kemur frásögn Hálfdáns Ingólfssonar, sem þarna var drengur á fimmtánda aldursári, og þá þegar kominn með áhugann á flugi. Hann átti langan farsælan starfsvettvang sem atvinnu flugmaður. Hann skrifar:

Eins og ég man þetta, lenti vélin á “Lækjarbrautini” – þ.e.a.s. meðfram svokölluðum Drápslæk. Einhver hafði sagt þeim frá þeim lendingarstað. Lendingin gekk fínt og við spjölluðum við þá. Þeir sögðust hafa leyfi frá Gunnari Jósepssyni til að veiða á stöng, en sú saga var einhverra hluta vegna ekki alveg trúverðug (ég man þó ekki hvers vegna), en öllum var sama um það, nóg af silungi í þá daga.

Við vorum á leið fram í Reiðá, og þegar við komum til baka seinna um daginn var vélin kominn á sandflákann þar sem Bæjaráin beygir í Drápslækinn, með brotinn propp og skemmt vinstra aðalhjól. Þeir (Erling?) sögðust hafa farið tómir í loftið og lent á sandinum til að komast þungir í loftið þaðan, og sú lending endað á nefinu. Heimamenn röktu slóð vélarinnar til baka! Vélinni hafði verið ýtt eftir sandinum frá uppspörkuðum stað rétt við síðasta barðið milli lækjarbrautar og sandflákans, og við röktum förin eftir hana þar sem hún hafði skrimplast yfir þúfur og hóla eftir mislukkað flugtak á lækjarbrautinni! (þetta sést að hluta á mynd sem kemur fram áður en lestur hefst á þessari síðu (áá))

Þar hefur vinstra aðalhjólið skemmst og proppurinn svo brotnað þegar hún fór á nefið fram af síðasta barðinu og niður á sandinn. Það var ekki að sjá að hún hafi farið á bakið. “Hálf”-saga Erlings og sú sem þeir reyndu að segja okkur eftir á var sennileg sett saman til að fela klúðraða flugtakið fyrir flugmálayfirvöldum þeirra tíma.

“Lækjarbrautin” er í nútímanum þurrari, harðari og umfram allt ekki eins hólótt og hún var 1964. Þá mótaði varla fyrir henni, en einhver hafði þó sett nokkrar stikur . Þverbrautin og brúin komu um 1990. Vélin reyndi flugtak í átt að Kögri, en náði sennilega ekki nægum hraða – og logn hjálpaði ekki til. Sandflákar ofan við beygju árinnar, hafa nú gróðurþekju að hluta.

Á www.timarit.is má finna margt sem tengist þessari sögu. Erling eignaðist hlut í “Fleet Finc” flugvélinni árið 1960. Þá þurfti vélin yfirhal og varð aftur flughæf undir lok árs 1961. Áratugum saman var bækistöð og skýli fyrir vélina í Múlakoti. Það tengist beint upphafi þess sem þar fer nú fram. Vélin gat dregið svifflugvélar og komið á loft. Á tímabili var vélin elsta vél í íslenska flugflotanum.

Nú vakna spurningar. Hverjir voru ungu mennirnir sem komu til aðstoðar í víkinni? Þeir hafa væntanlega verið fæddir 1940-1950. Gerist sagan öll á 24-48 klst? Hver var “prentarinn” ?

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA