Um sviplegt fráfall tófu

Síðast uppfært 8.ágúst 2018

Meðferð skotvopna í friðlandi Hornstranda er bönnuð. Hér áður fyrr voru veittar undantekningar frá þessu, einkum þegar um refaveiðar á vegum hins opinbera var að ræða. Nú hefur verið tekið fyrir slíkar veiðar. Mörgum líst þannig á umræðu um verndun refa á völdum svæðum, að þeir sem ekki hafa séð á eftir neinu í refskjaft hafi aðrar skoðanir en þeir sem hafa lent í slíku.

Ég þekki það frá fyrstu hendi, að vera fremur hliðhollur þessum dýrum í friðlandinu, og hafa gaman af því að sjá þau í návígi, en finna síðan hverning manni líður við að sjá stungið undan andapari sem í örvæntingu valdi að gera þriðja hreiður sumarsins þétt við sumarbústað, koma útungun vel af stað, en missa síðan eggin í refskjaft á meðan bústaðurinn stóð mannlaus í örfáar mínútur. Gangur náttúrunnar……..en samt !

Laugardaginn 13. maí 2006 viðraði vel til flugs um vestanvert Ísland. Þá komu 4 einstaklingar og lentu í Fljóti. Þetta voru Hörður Ingólfsson og sonur hans Aron Gunnar, og Ásmundur Guðnason og dóttir hans Kristín.

Frásögn Harðar 

Hörður segir svo frá að þegar hann hafi komið í Atlatungu hafi þar fyrst verið að frétta :

að dauð tófa væri um 30 metrum inn af og upp af bústaðnum. Ekki leyndi sér staðurinn, því mikið af vetrarhárum lágu eins og fífuflyksur út um allt undan vindi frá ”líkinu”.

 Að sögn vitna var morðið framið aðfaranótt föstudags einhvertíma um nóttina. Vitni kváðust ekki hafa orðið vör við neinn hávaða eða læti meðan á atinu stóð. Skoðun á hræinu leiddi í ljós stórt bitsár á brjóstholi svo sást bæði inn í það og í kviðarhol. Staðartófan liggur undir grun, og sást til hennar að morgni föstudags skjögra frá Atlatungu og liggja lengi og hvíla sig skammt frá.

Margar tófur í Fljóti

 Ingólfur Eggertsson hefur séð og fylgst með 3 tófum síðan atburðurinn átti sér stað. Tvær þeirra eru gráar í vetrarhárum og ein brún. Þær munu allar hafa verið sléttar og felldar og ekki bera nein ummmerki bardaga uppá líf og dauða um yfirráð yfir matarkistu svæðisins.

 Færa má rök fyrir því að velviljaðar matargjafir Atlatungubúa hafi hrundið að stað atburðarrás þar sem svæðið umhverfis hefur hækkað um mörg tófukúgildi að dýrleika, svo mjög að tófur meta nú Atlatungu sem höfuðbýli hið mesta og leggja líf og limi í hættu til að fá þar yfirráð eða verja eftir aðstæðum. Segja má því að verðbólgan og mat á búsetustöðum hafi einnig seilst með klærnar norður í Fljótavík með óvæntum og ískyggilegum hætti. ”

Fleiri refir – minni veiðilendur 

 Þannig sagði Hörður frá þessu. Með fjölgun refa minnka veiðilendur hvers fyrir sig, og Hörður hefur því rétt fyrir sér í því að einhver tófan hafi tileinkað sér svæði sem önnur hefur síðan reynt að stelast í. Hörður segir:

 er það alþekkt að sögn, að tófur bíti hvora aðra af sér en ég hef ekki heyrt af svona umgangi áður. Nú vitum við að tófur grafa fjöldann allanan af matarleifum tvist og bast. Verið getur að sótt hafi verið fast að svæðinu í vetur og líkt og í nútímanum á bara að vera einn sigurvegari. Kannski ættum við að uppnefna staðartófuna Björgólf?”

Samkvæmt sögunni er búið að sjá 5 dýr í Atlastaðalandi í vor (vorið 2006 áá) . Reyndar er vitað um annað hræ rétt undir brekku sem liggur upp að sumarhúsinu Atlastöðum. Að sögn Sigrúnar Vernharðsdóttur mun þetta vera töluvert eldra.

Svona atburður hefur ekki gerst áður í manna minnum í Fljóti.  Dauði  tófunnar hlýtur að flokkast sem náttúruleg afföll í tölfræði þeirra vísindalega þenkjandi einstaklinga sem lýsa því sí og æ yfir að fjölgun í refastofni Hornstranda sé ekki teljandi.

Refir á höfuðborgarsvæðinu !

Það verður fróðlegt að fylgjast með þegar burtreknir refir fara að vappa um Laugarveg í leit að æti og veiðilendum. Menn eru svo sem búnir að sjá við því. Þeir verða fangaðir og settir í að éta máva umhverfis Keflavíkurflugvöll, og vel að merkja allir látnir sverja þess dýran eið að snerta aðeins máva og kríur, en allst ekki mófugla—og aðeins innan gamla varnarsvæðisins!

Ásgeir

 

Print Friendly, PDF & Email

One Reply to “Um sviplegt fráfall tófu”

  1. Þessi var helvíti góð!

Comments are closed.

EnglishUSA