Örnefni Atlastaða …Jóhann Hjaltason

 

Atlastaðir í Fljóti

Örnefni, sagnir og landlýsing, eftir sögn Júlíusar Geirmundssonar, bónda á Atlastöðum.

Skráð í frumriti haustið 1940, en hreinritað og aukið að frásögn haustið 1966, af Jóhanni Hjaltasyni.

Byggðin Fljót á Ströndum er dalur mikill á milli hárra fjalla, sem liggja frá norðvestri til suðausturs. Út af dalnum er stutt en allbreið vík á milli fjallanna Hvestu  og Kögurs. Nú á tímum er víkin af ýmsum kölluð Fljótavík, sem er rangnefni, þó að það hafi komizt í bækur og á uppdrátt Íslands. Hið rétta nafn víkurinnar er vafalítið Fljótsvík, sem ljóst má vera af því, að nafn byggðarinnar er eintöluorð eins og sést af öðrum nöfnum þar, t.d. Fljótsheiði og Fljótsskarð,  er hvort tveggja liggja á milli Fljótsins og nálægðra byggða. Eintölumyndin er forn og hefur haldizt í þessum örnefnum í munni fólks, enn þann dag í dag.Í Landnámu segir: „En um vetrinn tók við þeim öllum Atli í Fljóti.“ Þar er verið að skýra frá skipbroti og vetrarvist Vébjarnar Sygnakappa og félaga hans.Í Jarðabók Á.M. frá 1710 er nafnið haft í eintölu, enn fremur í Ferðabók O. Olavíusar frá 1775 og síðast en ekki sízt í lýsingu Aðalvíkursóknar, eftir séra Jón Eyjólfsson, frá árinu 1848.

En svo kemur til sögunnar hinn kunni fræði- og vísindamaður dr. Þorvaldur Thoroddsen og setur nafnið í fleirtölu, bæði í Íslandslýsingu sinni hinni miklu og Ferðabókinni. Þessi ruglingur dr. Þ.Th. er þeim mun óskiljanlegri, þar sem hann í Ferðabókinni vitnar einmitt í sóknarlýsingu séra Jóns, sem fyrr er nefnd og birtir úr henni kafla innan tilvitnunarmerkja, svo að ætla mætti að orðrétt væri. En svo er raunar ekki heldur er kaflinn umskrifaður, sem nú skal sýnt.Dr. Þ.Th. segir:

Jarðbönn eru þar í Fljótum oftast öllum vetrum og á sumrum tíðast óþerrar með þokufýlu og stórslögum af norðri, og því atkvæði mun mega á ljúka, að vetur og sumar muni varla að jafnförnu verra veður á nokkrum stað á Íslandi en þar. Það má hafa til marks, að sumarið 1844 var Glúmsstaðavatn ekki alleyst í 19. viku sumars, enda voru sjaldgæf harðindi veturinn fyrir.“ (Þ.Th. Ferðabók, 2. útg. II. bindi, bls. 157).

En séra Jón Eyjólfsson segir:

„Jarðbönn eru þar oftast öllum vetrum og á sumrum tíðast óþerrar með þokufýlu og stórslögum af norðri, og því atkvæði mun mega á ljúka, að vetur og sumar muni varla að jafnförnu, verra veður á nokkrum stað á Íslandi en þar. Það má hafa til marks hér um, að sumarið 1844 var Glúmsstaðavatn, sem er niðri í Fljótinu, milli bæjanna þar, ekki alleyst í 19. viku, enda voru það sjaldgæf harðindi, sem gengu veturinn fyrir.“ (Sóknalýsingar Vestfjarða, Reykjavík 1952, II. bindi, bls. 187).

Eins og sjá má á þessum tveimur ívitnunum, þá er vart hægt að kalla umskrift dr. Þ.Th. annað en beina fölsun á texta séra Jóns, að því er tekur til nafnsins á byggðarlaginu, þó að öðru leyti sé rétt með efnið farið. Sennilega er þessi síðari tíma ruglingur á nafninu, frá eint. til fleirt., fyrst og fremst frá dr. Þ.Th. runninn og ritum hans, hvernig sem á því stendur að slík villa sezt að í höfði jafn ágæts fræði- og vísindamanns og dr. Þ.Th. Sennilega hafa Fljótin í Skagafirði villt um fyrir honum, og svo hefur hann e.t.v. heyrt fólk norður þar tala um Fljótavík. Í síðari tíma talmáli, einkum eftir að jukust samgöngur á sjó, hefur þótt léttara að segja Fljótavík en Fljótsvík, enda kemur fleirtölumyndin aðallega fram í því orði. Allir eldri Strandamenn tala enn um að fara norður í Fljótið en ekki Fljótin, þó segja sömu menn gjarna Fljótavík og gæta þá ekki ósamræmisins í beygingunni.

Meginhluti af láglendi Fljótsins liggur undir grunnu stöðuvatni, sem nú á tímum er af flestum nefnt Atlastaðavatn (1), en fyrrum Glúmsstaðavatn (2). Sbr. fyrr nefnda sóknarlýsingu sr. Jóns Eyjólfssonar, frá 1848. Í Jarðabók Á.M. virðist vatnið einfaldlega vera kallað Fljótið (3), þar sem svo er að orði kveðið, að silungsveiði sé góð í Fljótinu og ám þeim er í það renni.

Atlastaðir eiga land allt austan megin í dalnum og út fyrir Kögur að Almenningum hinum vestri. Láglendi er minna þeim megin vatnsins, en þó nokkurt og allvotlent víða nokkuð. Undirhlíðar fjallanna austan megin Fljótsins eru víðáttumiklar, með mörgum smádölum eða hvilftum efst í hlíðum, sem ganga upp að hamrabrúnum háfjallsins, sem í aðalveru sinni er slétt að ofan og sums staðar allt að því eggmjótt. Fjallgarðurinn á milli Fljóts annars vegar og Almenninga og Kjaransvíkur hins vegar er geysihár, um 5-600 m og þar yfir og efstu brúnir hans yfirleitt ókleif klettaþil, með einstaka færum skörðum, sem fyrr er sagt í örnefnaskrám Kjaransvíkur og Vesturalmenninga.

Fyrir dalbotninum miðjum er Fljótsskarð (4), sem fyrr getur. Þar eru landamerki á milli Atlastaða og Glúmsstaða. Vestur úr skarðinu tekur við svonefnd Háaheiði sem liggur úr Fljótinu og vestur til Hesteyrar, en má einnig fara vestur til Miðvíkna og Aðalvíkur. Austan við skarðið og niður frá því heita Jökladalir (5) einu nafni. Bera þeir nafn af því að þar eru jafnan hjarnfannir, sem ekki leysir á sumrum. Austan megin skarðsins á háfjallinu er Fannarlág (6) og Fannarlágarfjall (7), á milli Jökladala í Fljóti og Vatnadals í Kjaransvík. Úr Jökladölum renna árnar Reiðá (8) og Þverá (9) niður í suðausturenda Atlastaðavatns. Niðri í dalnum, fyrir heiman Reiðá, eru Reiðárholt (10) og Reiðárholtasteinn (11).

Jökladalirnir eru þrjú daladrög með holtahryggjum á milli, en hafa ekki sérstök nöfn hver fyrir sig. Heiman við þá er Þorleifsskarð (12) og niður frá því Þorleifsdalur (13). Brekkan eða hlíðin niður frá Þorleifsdal heitir Sniðabrekka (14), en fjallsöxlin þar upp af sunnan við skarðið Sniðaöxl (15). Heiman við Þorleifsdal, á milli hans og Hvannadals, er klettamúli mikill á fjallsbrún, er nefnist Hvannadalshorn (16), en heiman við það er Hvannadalur (17). Upp úr Hvannadal, sem er miklu breiðari og víðáttumeiri en Þorleifsdalur, er Hvannadalsskarð (18), bratt mjög uppgöngu og með nokkrum klettastöllum yfir á Almenninga, en þó fært gangandi manni.

Hátt í dalnum sunnarlega er tjörn, sem kölluð er Hvannadalsvatn (19) og kemur Hvannadalsá (20) þaðan. Rennur hún fyrst í norður eða norðvestur, en beygir síðan og fellur beint niður hlíðina og í Atlastaðavatn. Þar sem áin mætir vatninu heitir Hvannáreyri (21), heiman til við árósinn og þar hjá Sel (22), en þar var fyrrum selstaða frá Atlastöðum. Heiman til við Hvannadal er á fjallsbrún hamraöxl mikil, kölluð Dagmálahorn (23). Heiman til við það er Svínadalur (24), sem er stór nær því hringlaga eða skeifumynduð hvilft á milli Dagmálahorns og Bæjarfjalls. Ranghali (25) er kallaður mjór dalkimi út frá honum inn í hlíð Bæjarfjalls.

Á fjallsbrún, norðan við miðjan dalbotninn, er hamratindurinn Tafla (26), en sunnan við hana eru svo nefnd Breiðuskörð (27), sem er algengasta og auðveldasta leiðin á milli Kjaransvíkur og Atlastaða, um Almenningaskarð og Vesturalmenninga. Breiðuskörð eru þó hvergi alveg klettalaus, heldur eru þar töluverðir klettastallar þó að vel séu færir, en aftur á móti ná þau yfir alllangan spöl af fjallsegginni eins og nafnið bendir til og eru síður vandhitt í dimmviðri en t.d. Þorleifsskarð, sem er alveg klettalaust en örmjótt með háa hamraveggi á báðar hendur.

Af Svínadal rennur Svíná (28) í Atlastaðavatn. Framan til við Svínárósinn er Svínáreyri (29) og Illakelda (30) þar fyrir framan. Er landið þar lágt yfir sjó og víða votlent upp frá vatninu. Fyrir heiman Svíná er allmikið láglendi, sem myndar breiðan odda vestur í vatnið, og heitir þar Langanes (31). Upp frá því er svo nefndur Grafahjalli (32), sem ber nafn af mógröfum og upp af honum er svo Bæjarhjalli (33), er nær alla leið heim á móts við Atlastaðabæ. Þar upp af er svo fyrrnefnt Bæjarfjall (34), sem er alllangur fjallsrani og hömrum girtur, er gengur vestur úr fjallgarðinum, gegnt Haugahlíð að norðan.

Á Grafahjalla eru svo nefndar Grafir (35) og niður af þeim Grafahóll (36). Á milli Bæjarfjalls og Kögurs ganga dalir tveir norðaustur í fjallið.  Heitir hinn syðri þeirra Krossadalur (37), norðan við Bæjarfjallið, en Krossar (38) heita há og hvöss fjallsgnípa fyrir dalbotninum. Nyrðri dalurinn nefnist Bæjardalur (39) og rennur Bæjará (40) um hann í Atlastaðaós, nokkuð fyrir utan bæ. Hún kemur úr Sandvíkurvatni (41) sem er að vestanverðu við fjallsbrúnina, gegnt Sandvík að norðan. Mitt á milli dalabotnanna er hamrahnúkurinn Beyla (42) á fjallsbrún og myndar lítils háttar múla út á milli þeirra.

Töluvert láglendi er norður frá bænum, niður af Bæjardal, og heitir það Skjaldarbreiða (43), en niður frá því eru hólar eða sandklakkar, sem kallast Skildir (44). Ef bjarndýr ganga á land, sem alltaf má búast við ef hafís er úti fyrir, þá er mælt að þau komist ekki lengra en á þessa hóla. Sagt er að hólarnir séu fornmannahaugar og að þeir, sem þar voru heygðir endur fyrir löngu vaki yfir byggðinni enn þann dag í dag og varni því, að hvorki bjarndýr né slæðingur úr sjó vinni henni mein.

Út með sjónum fyrir utan Bæjardal heitir Kögurhlíð (45), en sumir kalla þar Atlastaðahlíð (46) sem er rangt. Heimst á hlíðinni er uppsátur Atlastaðabænda og heita þar Naust (47).  Voru þar fyrrum stundaðir róðrar bæði vor og haust, því að fiskur var þá jafnan nógur skammt undan landi.  Á hlíðinni eru lendingarskilyrði fremur góð í austan- og norðaustanátt, en í norðvestanátt, sem hér er yfirleitt kölluð hafátt, og vestanátt er ólendandi fyrir brimi, með því að fjaran er þar bæði stórgrýtt og flúðótt og hvorki nes né sker hlífa fyrir ósjó.

Uppi yfir fyrr nefndri Kögurhlíð er hamrafjallið Kögurinn (48) , er sjómenn nefna svo, og er sæbratt mjög og nálega gróðurlaust með öllu.  Upp af fyrr nefndum Naustum er hvammur, sem kallaður er Bolli (49).  Þótt fjallið Kögur sé mjög klettum sett er það ekki fuglabjarg og yfirleitt hvergi lóðrétt bjarg í sjó, nema þá einna helzt að norðanverðu á nokkru svæði.  Norðvestan undir fjallinu er lítið urðarnes út til sjávarins, sem nefnist Kögurnes (50).  Út af nesinu er Kögurröst (51), sem mjög oft er ill yfirferðar.  Straumamót þessi eru líka kölluð Kagraröst (52).  Framan í fjallinu er stór lægð eða hvilft, sem kallast Kögurskál (53).

Að vestanverðu við Kögurnesið er svo nefnd Kænuvík (54), en Kagravík (55) norðan megin, og nær hún frá Kögurnesi að svonefndum Grjótleitum (56), sem í daglegu tali er stytt og aðeins kallað Leiti (57) eða Leitin.  Kögurnes er líka oft kallað Kögurtá (58).  Norðan við Grjótleitin er svo nefnd Sandvík (59), sem er þó engin eiginleg vík í venjulegum skilningi, heldur aðeins bót eða bugur inn í landið og er svo einnig um Kænu- og Kagravík.

Skammt undan landi eru svo kölluð Sandvíkursker (60), en Selsker (61) heita nokkur smásker, sem eru inn hjá Balaströnd á Almenningunum, rétt utan til við Kirfið.  Í Sandvík, sem nær að Sygnahlein, er mjó malarfjara og brattar leirskriður fyrir ofan, en síðan lóðréttur bergveggur upp á fjallsbrún.  Efst í skriðunum og neðarlega í berginu eru surtarbrandslög, sem sums staðar eru allt að 3 m á þykkt.

Í túninu á Atlastöðum er svo nefndur Skiphóll (62) og dregur hann nafn sitt af því, að þangað voru skip og bátar sett á vetrum, þar sem eigi þótti fært að hafa þau úti á hlíðinni, vegna hamfara vetrarbrimsins á þeim slóðum

Fyrir öllum víkurbotninum er sandur mikill og malarkambur, sem mynda allbreitt rif á milli vatns og sjávar.  Út í gegnum sandinn, norðanvert við miðju hans, fellur frekar mjór ós til sjávar, og nefnist hann Atlastaðaós (63), en í daglegu tali heimamanna er hann aðeins kallaður Ósinn (64).  Eins og fyrr er sagt þá tekur Atlastaðavatn yfir meginhlutann af láglendi Fljótsins.  Vatnið er víðast hvar allgrunnt, sennilega lítið yfir 1 – 2 m á dýpt um fjöru, því að sjór fellur upp í það um Ósinn.  Á flæði er það mun dýpra og er Ósinn þá með öllu óreiður og óvæður.

Í haust- og vetrarbrimum kemur það fyrir, að Ósinn stíflast og stendur uppi, sem svo er kallað og hækkar þá eðlilega mjög í vatninu.  Vatnið er yfirleitt nokkuð jafnbreitt alla leið inn í dalbotn, en töluverð mjódd er þó í það, þar sem Langanes gengur vestur í vatnið, gegnt Tunguengjum.  Ósinn eða rásin út í gegnum sandinn og malarkambinn er fremur mjó eins og fyrr er sagt, en ofan við sandinn breikkar vatnið strax fram að áður nefndri mjódd við Langanes.  Þessi hluti vatnsins, sem mun vera um einn fjórði hluti þess, er allur kallaður Ós, að minnsta kosti fram á móts við Atlastaði, sem standa skammt frá vatnsbakkanum um 6-700 m frá sjó.

Líklega er vatnið nokkru dýpra framar í dalnum, þó að það muni aldrei hafa verið mælt, en þessi neðsti hluti þess er sem áður greinir mög grunnur, með sandi og leðju í botni og jafnvel sandbleytum eða pyttum sums staðar.

 Örnefni í stafrófsröð.      Tölur vísa til umræðu í greininni hér að ofan

Atlastaðahlíð 46 = 45

Atlastaðaós 63 = 64

Atlastaðavatn 1 = 2, 3

Beyla 42

Bolli 49

Breiðuskörð 27

Bæjará 40

Bæjardalur 39

Bæjarfjall 34

Bæjarhjalli 33

Dagmálahorn 23

Fannarlág 6

Fannarlágarfjall 7

Fljót 3 = 1, 2

Fljótsskarð 4

Glúmsstaðavatn 2 = 1, 3

Grafahjalli 32

Grafahóll 36

Grafir 35

Grjótleiti 56 = 57

Hvannadalsá 20

Hvannadalshorn 16

Hvannadalsskarð 18

Hvannadalsvatn 19

Hvannadalur 17

Hvannáreyri 21

Illakelda 30

Jökladalir 5

Kagraröst 52 = 51

Kagravík 55

Krossadalur 37

Krossar 38

Kænuvík 54

Kögur 48

Kögurhlíð 45 = 46

Kögurnes 50 = 58

Kögurröst 51 = 52

Kögurskál 53

Kögurtá 58 = 50

Langanes 31

Leiti 57 = 56

Naust 47

Ós 64 = 63

Ranghali 25

Reiðá 8

Reiðárholt 10

Reiðárholtasteinn 11

Sandvík 59

Sandvíkursker 60

Sandvíkurvatn 41

Sel 22

Selsker 61

Skildir 44

Skiphóll 62

Skjaldarbreiða 43

Sniðabrekka 14

Sniðaöxl 15

Svínadalur 24

Svíná 28

Svínáreyri 29

Tafla 26

Þorleifsdalur 13

Þorleifsskarð 12

Þverá 9

 

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA