26.des. 2014

 Úrskurður Óbyggðanefndar um

Húnaþing vestra

 

<1969-3

 

 

Síðasta pistil birti ég föstudaginn 19.des. 2014. Seinna þann dag komu fréttir um að Óbyggðanefnd hefði fellt úrskurð varðandi kröfur Fjármálaráðherra vegna þjóðlenda í Vestur Húnavatnssýslu. Fyrir þá sem Continue reading “26.des. 2014”

Föstudagspistill 18.apríl 2014

Nú verður það stutt.

1)    Fyrst legg ég áherslu á að fólk lesi “bloggið” hér fyrir neðan um Óbyggðanefnd og mikilvægi þess að koma þinglýsingarskjölum í lag – og viðhalda því svo í lagi! Í því sambandi bendi ég líka á yfirsíðuna “Landeigendur“.

Um páska er fólk að fara landshluta á milli – eldri og yngri kynslóðir hittast – notið tækifærið og ræðið þetta!

2)    Ég læði stundum inn nýjum tengingum í “Tímalínuna” – og sem dæmi bendi ég á að við ártalið 1949 er nýr hlekkur um Gunnvör og eins við árið 1974 þar sem er hlekkur í viðtal við Helga Geirmundsson vegna ísbjarnarins.

3)   Þá birti ég afrit af friðunarskjali skálatóftar Vébjarnar signakappa. Í skjalinu kemur fram að eigendum jarðarinnar beri að varðveita skjalið. Mér segir nú svo hugur um að þann 16.júní 1946 hafi þetta skjal ekki verið efst í huga þeirra eigenda jarðarinnar sem síðastir yfirgáfu víkina fögru – en það væri nú samt gaman að vita hvort einhver viti hvort þetta (frumrit) hafi verið varðveitt einhvers staðar allan þennan tíma?

…þetta varð nú bara lengra en til stóð….

Ásgeir

Föstudagspistill: 11.apríl 2014

Undanfarið hef ég kallað þessi skrif: “Föstudagspistil” , og svo hefur dagsetning dagsins komið á eftir. Þó ég hafi verið með síður í vinslu þessa vikuna, ætla ég ekki að uppfæra neinar nú – en  birta þess í stað neðanritað “blogg” – svona til að reyna að íta við fólki.

Réttari yfirskrift gæti verið:

Hvað er Óbyggðanefnd að gera – ert þú að fylgjast með?

Lög segja að í þinglýsingarskjali landareignar í dreifðri eignaraðild, skuli vera getið um fyrirsvarsmann. Til að leggja frekari áherslu á það – er ekki lengur hægt að breyta þinglýsingarskjali þar sem þetta á við, nema nafn fyrirsvarsmanns sé komið á skjalið. Með dreifðri eignaraðild, er í lögunum átt við það ef eigendur eru fjórir eða fleiri, og því á þetta við um Atlastaði og Skjaldabreiðu. 

Fyrir nokkrum árum ritaði Sýslumaðurinn á Ísafirði bréf um málið og gekk Hörður Ingólfsson í það að koma þessu í lag.  Niðurstaðan varð að Atli Ingvarsson er skráður fyrirsvarsmaður fyrir Atlastaðalandi, en hvað Glúmsstaði og Tungu varðar – er málið einfalt því það er einn eigandi. Mér er ekki kunnugt um hvort fyrirsvarsmaður sé skráður á þinglýsingarskjal Skjaldabreiðulands.

Samkvæmt heimasíðu Óbyggðanefndar, er búið að úrskurða um flest svæði landsins – Snæfellsnes og að Gilsfjarðarbotni verða næst tekið til umfjöllunar – og þar á eftir, sem næst síðasta svæði landsins verða Vestfirðir teknir fyrir í heild sinni. Það styttist því hratt í þetta – og eins og ég hef áður gefið í skynverða landeigendur að vera tilbúnir til að gefa álit, sem ein heild með stuttum fyrirvara þegar að því kemur – og það þarf því að vera á hreinu – hverjir eru landeigendur, því aðeins verður hlustað á þá.

Ég hef heyrt orðróm um að þegar komi að Hornstrandarfriðlandi, muni ríkið gera kröfu um að eignast allt svæðið í heild sinni, meðal annars á þeim forsendum að þarna hafi engin landnýting átt sér stað í marga áratugi. Vonandi er þetta bara orðrómur…..

Ég á enga aðkomu að eignarhlut í Fljótavík, og í mínum huga erfast hlutir eftir blóðböndum. Reyndar má vera að einfaldast sé að gleyma því hver á hvaða hlut – og líta á Fljótavík sem almenningseign……….. eða hvað…… ?

Nei – ég held nú að rétt sé að þið sem eigið  land – eða bara líklegan erfðarétt að landinu í Fljótavík, ættuð að reyna að halda í það – og því vil ég enn og aftur hvetja til þess að þinglýsingarskjali hverrar jarðar fyrir sig verði komið í lag eins fljótt og auðið er. Þið sem yngri eruð ættuð að spyrjast fyrir um þetta hjá þeim sem eldri eru….

Eins og alltaf – þá er orðið laust, og umræður og þá eitthvað sem kemur mér á réttari leið ef ég veð í villu – vel þegið. Veljið “Leve a reply” – lengst til vinstri undir yfirskriftinni – og þá opnast gluggi sem þið notið til að skrifa það sem þið viljið segja – og síðan þegar þið eruð tilbúin til að birta umsögnina, þurfið þið að “reikna” smá dæmi til þess að sanna að þið séuð ekki einhver leitartölva úti í heimi – sem er að reyna að koma skilaboðum inn á síðuna….. nokkuð sem er reynt oft á dag..

Ásgeir

EnglishUSA