Upphafið

Hvernig byrjaði þetta?  Jú—ritsjóri gekk með grilluna —lengi—lengi– en sendi loks tölvupóst með tillögu á fyrsta legg afkomenda Boggu og Ingólfs í Atlatungu, 1.sept. 2003. Þetta þurfti þó að hugsa fram og til baka  – í svona eitt og hálft ár, en þá fórum við allt í einu að taka bílum merktum Fljótavík á vegum landsins –  og á Suðurnesjum mátt sjá bíl með merkingunni “Atlastaðafiskur”.

Það var augljóst að nú yrði að gera eitthvað ef við ættum að ná í nafnið á léninu, og svo kom að Ingólfur Gauti Arnarsson keypti – og á – lénið  www.fljotaviks.is , og hann fór í gang með grunnhönnunina. Restin er svo hér á síðunni.

Tillagan sem send var á sínum tíma var þessi:Gerð verði heimasíðan: www.fljotavik.is. Á síðunni verði hægt að nálgast efni sem tengist Fljótavík. Í viðbót við opinn aðgang fyrir alla verði lokaður aðgangur fyrir hvern sumarbústað fyrir sig og þar verði t.d. hægt að vinna að gæðahandbókum og ððru sem óþarft er að sýna öðrum en tilheyra búðstaðnum. Þá væri ekki úr vegi að hafa spjallrás eins og t.d. (var þá) á www.bb.is – og jafnvel gestabók. Þetta kostar peninga vegna beinnar vinnu og við að hafa síðuna á sítengdri tölvu. Hversu mikið veit ég ekki og því varpa ég þessu fram til umræðu. Ég er ekki að stinga upp á að við gerum vef sem fæðist fullskapaður – þvert á móti – vef sem vonandi margir vilja koma að með efni. Ég er hins vegar að vona að einhverjir séu svo vel að sér í þessum fræðum að þeir geti komið þessu í gang með tiltölulega lítilli fyrirhöfn – jafnvel að einhver sem þarf náms síns vegna að gera heimasíðu hvort sem er – nýti sér þessi efnistök.                                    1.september 2003   Ásgeir Ásgeirsson

Frekari rökstuðningur og pælingar:   Ef grannt er skoðað, liggjur merkilega mikið fyrir nú þegar af gögnum sem tengjast Fljótavík, gömlu bæjarnöfnunum og núverandi sumarbústöðum.  Sumt er finnanlegt á internetinu, þó það sé sorglega lítið. Samt er það þannig, að ef spurt er í leitarvélum um Fljótavík eða Atlastaði – þá finnst töluvert. Það væri spennandi að reyna að koma þessu saman  – linka – á einn stað – ekki satt? 

Í raun, er áhyggjuefni – og þá eftirvænting – bundin því sem ekki er skráð neins staðar.  Þeim fer fækkandi sem geta sagt sögur frá liðinni tíð – og ekki síður sagt til um örnefni. Þeir sem hafa komið á Atlastaði og séð hina gríðarmiklu loftmynd sem þar er var af víkinni, vita að þarna er augljóslega eitthvað sem mætti setja upp á vefinn. Ekki eru allir sammála um örnefnin, eða hvort þau séu rétt staðsett, en það er einmitt dæmi um að það þarf að gera eitthvað í málinu.  Það að myndin var sett upp, og reynt eftir bestu getu að staðsetja örnefnin rétt er lofsvert framtak, og við ættum öll að hvetja til þess að þessu verið framhaldið, og unnið til hlýtar.

Þegar umræðan um hvort gefa ætti út byggingaleyfi fyrir Atlatungu stóð sem hæst, fór fram mikil vinna, sem mæddi mikið á fáum. Gerð voru kort, og rætt við fólk sem bjó á svæðinu á síðustu árum byggðar. Töluvert er til af gögnum frá þessari undirbúningsvinnu og margt af því á við um alla víkina.

Til eru göngulýsingar  frá nokkrum aðilum, örnefnalýsingar, kirkjubækur frá Staðarsókn og vafalaust fleiri heimildir, auk Sléttuhreppsbókar og Hornstrendingabókar. Upplagt væri að vinna efni upp úr því.

Fyrsta útgáfan í loftið

Þegar fyrsta útgáfa heimasíðunnar var gerð setti Ingólfur Gauti Arnarson hana útlitslega upp í forriti sem heitir Microsoft Publisher,  en  Ásgeir hefur verið “ritstjóri”  frá upphafi.  Síðan  fór í loftið í tengslum við aldarafmæli Maríu Friðriksdóttur en þess var minnst á miðju sumri 2005.

Smám saman söfnuðust upplýsingar  – síðan stækkaði – og hafði undið upp á sig  – nálgast upphaflegan tilgang sinn, þegar röð atburða og tölvubilana varð til þess að síðan lokaðist, og hafði ekki verið uppfærð í hátt í 4 ár þegar ný útgáfa tók við.

Tölvuumhverfi og netheimar hafa tekið miklum breytingum frá árinu 2005. Flestir íslendingar sem á annað borð nota tölvur, eru komnir á Facebook – og samskiptasíður eins og Facebook og Twitter hafa mikið til komið í staðinn fyrir bloggsíður.

Heimasíður á borð við www.fljotavik.is gætu við fyrstu hugsun virst úreltar eða tímaskekkjur. En – ef við hugsum um upphaflega markmiðið – að safna og halda saman upplýsingum sem tengjast þessu þröngt afmarkaða svæði – Fljótavík – þá er það mín skoðun að það verði að halda þessari síðu við og reyna að byggja við hana eftir því sem mál þróast og gamlir hlutir dúkka upp.

Síðan uppfærð: 25.júlí 2018

Print Friendly, PDF & Email