Gunnvör

Picture3

 

 

 

 

 

 

Eitt af því fyrsta sem gamla heimasíðan birti voru nokkrar línur um strand Gunnvarar. Textinn var þessi:

“Ms Gunnvör SI-81 strandaði í Fljótavík 21.janúar 1949. Áhöfninni, sjö manns var bjargað um borð í togarann Egil Skallagrímsson. Gunnvörin var á leið til Siglufjarðar eftir að hafa verið á vetrarsíld syðra. Jóhann og Þórður Júlíussynir keyptu flakið á strandstað. (Heimild: afmæliskver Gunnvarar hf).

Þórður Júlíusson hefur sagt Jósef Vernharðssyni frá því (jan. 2006) að skipið hafi lent í þoku og að það hafi ekki komist fyrir Kögur. Áhöfnin gat látið vita af sér í gegn um talstöð. 

Skipverjar biðu í flakinu eftir björgun. Sjór var ládauður. Ekki var talin ástæða til að fara í land, enda var ekkert þangað að sækja.Ekki var gerð tilraun til að draga skipið út, þó það væri óskemmt langt fram á vetur, enda stóð það í sandinum.  Lýst er eftir frekari upplýsingum .                                             áá070206″

Í viðbót við bláa textann hér að ofan hafði ritstjóri endurskrifað frétt Morgunblaðsins af strandinu, orð fyrir orð – því ekki tókst á þeim tíma að tengja heimasíðuna við upplýsingar frá www.timarit.is, eins og svo auðvelt er að gera í dag. Í stað þess að setja þann texta inn aftur vísast í tenginguna við frumheimildina.

En, ritstjóri bað um frekari upplýsingar, og þær komu heldur betur í formi greinar og mynda frá Kristjáni G Jóhannssyni, Júlíussonar, Geirmundssonar, frá Atlastöðum, og fær hann miklar þakkir fyrir. Greinin kemur hér:

 

Picture1

Gunnvör RE-81 og strand hennar í Fljótavík

Kristján G Jóhannsson (Janúar 2007)

Vélskipið Gunnvör SI 81 var skráð á íslenska skipaskrá á árinu 1939 samkvæmt sjómannaalmanaki Fiskifélags Íslands árið 1940 og er þá skráð í eigu Ingvars Guðjónssonar o.fl  á Siglufirði.  Skipið var smíðað í Lowestoft í Englandi árið 1925 úr eik og furu og hafði borið nafnið Merit áður en það kom hingað til lands.  Gunnvör var 26,91 meter á lengd,  6,12 metrar á breidd, dýptin var 2,95 metrar og mældist 102 rúmlestir brúttó.   Í skipinu var Wichmann vél 163 hestöfl að stærð og var hún sett í skipið árið 1939.   Samkvæmt skipaskrá í lok árs 1942 ber skipið  skráningarnúmerið RE 81 og er skráður eigandi Hervör hf. í Reykjavík.  Í bókinni  Þeir létu ekki deigan síga eftir Braga Sigurjónsson er í þætti um Ingvar Guðjónsson greint frá kaupum hans á skipinu og segir þar m.a.:

” Loks kaupir hann í félagi við Barða Barðason, skipstjóra, skipið Gunnvöru í Skotlandi árið 1938 og láta þeir félagar endurbyggja það að verulegu leyti í Noregi, setja í það nýja vél og búa fullkomnustu siglingatækjum.  Um þessi síðustu skipakaup Ingvars farast Sveini Benediktssyni, útgerðarmanni og síldarsaltanda, m.a. svo orð, er hann mælir eftir hann í Morgunblaðinu 14. desember 1943:

Þess mætti geta til marks um það, hve úrræðagóður og laginn hann var, er við erfiðleika var að etja, að honum tókst að ná kaupum á skosku skipi rétt fyrir heimsstyrjöldina, setja í það nýja vél í Noregi og endurbæta það á ýmsan hátt.  Það var vélskipið Gunnvör, sem reynst hefur mesta happafleyta við síldveiðar og ísfiskflutninga undir skipstjórn Barða Barðasonar.  Var þó ekki auðhlaupið að því að koma skipinu til landsins, því að Ingvari var synjað um gjaldeyrisleyfi til kaupanna og síðan lögsóttur og dæmdur í sektir fyrir að hafa ekki gert fulla grein fyrir því með hverjum hætti honum hafði tekist að koma þessu skipi í innlenda eign.”             (Þeir létu ekki deigan síga, bls. 140-141)

Picture2

 Gunnvör strandar í Fljótavík

  Vs. Gunnvör ferst á Hornströndum  –  Mannbjörg varð

 Í gærkvöldi fórst vjelskipið Gunnvör frá Siglufirði, á einum hættulegasta strandstað hjer við land, Kögrinu austan við Fljótavík á Hornströndum.  Áhöfn bátsins sjö   manns , björguðu skipverjar á togaranum Agli Skallagrímssyni frá Reykjavík.

Strax og Gunnvör strandaði kom leki að skipinu og sjó braut á því.  Í einu ólaginu sópaðist björgunarbátur skipsins af bátaþilfari.  Eftir því sem leið á kvöldið tók skipið að hallast meira og meira og stöðugt braut á því.

Kunnugir menn telja víst, að Gunnvöru muni ekki verða bjargað, því þarna er stórgrýtis urð og veður fór versnandi þar um slóðir í gærkvöldi.  Síðast fórst skip á þessum slóðum fyrir 25 árum síðan og varð engum af áhöfn þess bjargað  (Morgunblaðið,  22. janúar 1949, bls. 16)

Ítarlegar er greint frá strandinu í blaðinu Skutli sem út kom 28. janúar og þar segir m.a.:

 Ms. Gunnvör strandar — Frækileg björgun

S.l. föstudag heyrði loftskeytastöðin hér neyðarkall frá m.s. Gunnvöru RE 81.  Kvað skipstjórinn skipið vera strandað við Kögur og þurfa skjóta hjálp.  Loftskeytastöðin sendi út aðstoðarbeiðni til skipa bæði á mæltu máli og morsi og á íslensku og ensku. Þetta var um kl. 18.  Brátt náðist samband við b.v. Egil Skallagrímsson, sem var staddur út af  Ísafjarðardjúpi, og hélt hann þegar áleiðis til strandstaðarins.  Ennfremur náðist samband við brezka togarann Gregory, sem mun hafa verið staddur 7-10 sjómílur frá staðnum, og lagði hann einnig af stað til hjálpar hinu nauðstadda skipi.  Bv. Hvalfell fór ennfremur á staðinn og fleiri skip voru á leiðinni þangað, þar á meðal m.b. Finnbjörn,sem staddur var á Dýarfirði, þegar fréttist um strandið og m.b. Hafdís, eign h.f. Njarðar, bar þar einnig að.  Meðan skipin voru á leið til strandstaðarins hafði stöðin hér stöðugt samband við þau og við hið strandaða skip. Dimmt var í veðri og þungur sjór og aðstaða öll til björgunar af sjó talin mjög erfið.  B.v. Agli Skallagrímssyni tókst að finna m.s. Gunnvöru með með miðunartækjum sínum.

Á tímabili var talið að ekki mundi þýða fyrir önnur skip en þau, sem hefðu radar, að fara nálægt hinu strandaða skipi, en eitthvað mun hafa rofað til, og komu brezki togarinn og b.v. Egill Skallagrímsson fyrstir á strandstaðinn.  Mun það hafa verið um kl. 20.  Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru að óhætt mundi að koma á björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst lífbát skipsins strax eftir strandið.  Varð það úr, að lífbátur var sendur frá b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o.fl. tækjum.  Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálfan tíma tilkynnti skipstjórinn á Gunnvör, að báturinn væri kominn að hlið hennar, skipsmenn væru að fara í hann og hann væri að yfirgefa talstöðina.  Um kl. 22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um borð í Egil heilu og höldnu.  Á leið bátsins milli skipanna aðstoðuðu b.v. Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum.  M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll versnað svo að björgun af sjó hefði verið óhugsandi.  Þykir skipshöfn b.v Egils Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek.  Skipstjóri Egils er Kolbeinn Sigurðsson, en skipstjóri m.s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson.

Vegna þess, hversu björgun af sjó var talin tvísýn um tíma, hafði karladeild Slysavarnafélagsins hér, viðbúnað til að reyna björgun úr landi.  Var m.b. Gunnbjörn fengin til þess að fara héðan með sveit sjálfboðaliða og björgunartæki.  Átti sveit þessi að ganga á land í Fljótavík og freista að komast með björgunartækin á strandstaðinn.  Strandstaðurinn var fyrst talinn vera austan til við Kögur, en reyndist vera vestan til við hann, eða inni á sjálfri Fljótavík.

M.s. Gunnvör hafði ætlað að stunda vetrarsíldveiðar syðra, en var nú á leið til Siglufjarðar.  Hún hafði innanborðs 2 nýjar vetarsíldarnætur , að verðmæti um 130 þús. kr., og krossvið fyrir um 10 þús. kr.  Þessum verðmætur hefur verið reynt að bjarga úr skipinu, en ekki tekizt vegna óhagstæðrar veðráttu.  Ólíklegt er að skipinu verði bjargað. (Skutull, 28. janúar 1949, bls. 1)

 Flakið selt

Í  Skutli, sem kom út 11. mars 1949 er smáklausa í dálki sem nefnist   úr heimahögum og hljóðar hún svo:  “Sjóvátryggingafélag Íslands hefur nú selt flakið af m.s. Gunnvör þar sem það liggur nú í fjörunni í Fljótavík.  Söluverð mun hafa verið rúmar 6 þús. kr.  Kaupendur voru þrír Ísfirðingar.  Undanfarna daga hefur verið unnið við að bjarga ýmsum verðmætum úr skipinu. (Skutull, 11. mars 1949, bls. 3)”

Varðveist hefur bréf frá Rögnvaldi Jónssyni umboðsmanni Sjóvátryggingarfélagi Íslands á Ísafirði, dagsett 5. mars 1949,  þar sem kemur fram að Jóhann Júlíusson, bifrstj. hafi greitt þann dag krónur 6.150.- sem kaupverð m.s. Gunnvör RE , þar sem hún er á strandstaðnum í Fljótavík.  Kemur fram að þetta bréf gildi sem afsal fyrir eigninni þar til Sjóvátryggingarfélag Íslands hf.  í Reykjavík hafi gefið út afsal.   Það afsal var gefið út tveimur dögum síðar, eða 7. mars 1949 og hefur einnig varðveist og  er birt hér.

Samkvæmt þessu var Jóhann einn kaupandi flaksins, en ljóst er að Þórður bróðir hans var einnig aðili að kaupunum, en hins vegar hefur ekki komið fram að um  fleiri hafi verið að ræða þó það komi fram í  Skutli að kaupendurnir hafi verið þrír.

Gunnvör4

Bræðurnir Jóhann og Þórður Júlíussynir stofna síðan ásamt eiginkonum sínum og hjónunum Jóni B. Jónssyni og Helgu Engilbertsdóttur árið 1955 útgerðarfélag, sem bar heitið Gunnvör hf. og lét byggja fyrir sig samnefnt skip árið 1956.

Rúnar Vignisson ritaði árið 1995 sögu  útgerðarfélagsins Gunnvarar hf. og fjallar þar m.a. um stofnun fyrirtækisins og segir þar svo:

Nafn félagsins var sótt í samnefnt skip sem strandaði í Fljótavík í janúar 1949, en Jóhann og Þórður höfðu keypt flakið og nýtt úr því það sem nýtilegt var.  Ef til vill var þetta strand fararheill þeirra Gunnvararmanna.  (Gunnvör í 40 ár, bls. 7-8)

Í tilefni af tuttugu ára afmæli Gunnvarar hf. árið 1975 barst félaginu að gjöf frá Marselíusi Bernharðssyni, skipasmíðameistara, skipsklukka og barometer.  Í gjafabréfi sem fylgdi segir hann m.a.

Þessi klukka og barometer eru úr m.s. Gunnvör SI sem strandaði í Fljótavík þann 21.01. 1949. Tryggingarfélags skipsins gaf mér þessa gripi. Þar sem nafn þessa skips hefur fært ykkur gæfu og gengi á liðnum 20 árum, tel ég vel þess virði að eitthvað frá skipinu sé í eigu ykkar.

Þessir gripir ásamt mynd af skipinu og konunni sem það bar nafn af eru nú á skrifstofu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.

Prentaðar heimildir:

Bragi Sigurjónsson,  Þeir létu ekki deigan síga.  Sagt frá nokkrum forustumönnum í síldarútvegi 1880-1968,  Reykjavík 1992

Morgunblaðið, 36. árgangur

Sjómannaalmanak 1940,  Fiskifélag Íslands, Reykjavík 1939

Sjómannaalmanak 1943, Fiskifélag Íslands, Reykjavík 1942

Skutull,  XXVII. Árg.

Rúnar Helgi Vignisson,  Gunnvör í 40 ár,  Ísafirði 1995

 Óprentaðar heimildir

Kvittun frá Verslun Rögnv. Jónssonar umboðsaðila Sjóvátryggingafélags Íslands á Ísafirði, dags. 5. mars 1949,   í fórum höfundar.

Afsal frá Sjóvátryggingafélagi Íslands dags. 7. mars 1949 í fórum höfundar.

Afrit af gjafabréfi frá Marselíusi Bernharðssyni til Gunnvarar hf. dags

Þar með lýkur grein Kristjáns G Jóhannssonar.

_______________________________________________________________________________

Um strand Gunnvarar myndaðist smá bloggumræða:

15.01.2006 08:35:23[Ásgeir]
M.s Gunnvör SI 81 strandaði í Fljótavík 21. jan. Áhöfninni, sjö mönnum, var bjargað um borð í togarann Egil Skallagrímsson.  Gunnvörin var á leið til Siglufjarðar eftir að hafa verið á vetrarsíld syðra.  Jóhann og Þórður keyptu flakið á strandstað …..
Þannig hljómar texti dagsins. Kannast lesendur við einhverjar sögur sem tengjast þessu. Var reynt að ná bátnum á flot? Biðu menn í skipinu eftir björgun eða björguðu menn sér í land? Þetta gerist ca. tveimur og hálfu ári eftir að að víkin fór í eyði. Húsin voru því enn nothæf. Dvöldu menn kannski þarna í einhverja daga við að bjarga verðmætum? Fjaran tekur stundum miklum breytingum frá ári til árs. Eitt sumarið er fullt af grjóti þar sem restin af skipinu er nú – og næsta ár er þarna hrein sandfjara. Strandaði skipið þarna – eða færðist það eitthvað í brimum? Hver getur sagt þessa sögu?
16.01.2006 22:44:09     »    Ásgeir » http://www.fljotavik.is
Ég þarf að reyna að nöldra í mínum gamla stúdentsbróður – Kristjáni Jóa Júl – mig grunar að hann myndi hafa áhuga á að grennslast betur um þetta.
17.01.2006 17:58:52     »    Sigríður Jósefsdóttir » http://www.fotki.com/sjos
Ásgeir, ef ég man rétt þá var einhverntíma í Vestfirska Fréttablaðinu grein um strand Gunnvarar í Fljótavík, þarf að gramsa í gömlum ljósritum hjá mér og vita hvort ég finn þetta ekki
17.01.2006 18:22:44     »    Ásgeir » http://www.fljotavik.is
Takk fyriri þetta Sigga. Veit einhver hvort staðarblöð eins og Vestfirska eða hin séu varðveitt á safni hér sunnanlands?
27.01.2006 12:13:38     »    Jósef H.Vernharðsson »
Ég náði sambabandi við Þórð Júl í gær og spurði hann út í strandið.Gunnvörin var á leið til Siglufjarðar, eins og áður hefur komið fram,lenti í þoku en komst ekki fyrir Kögur.Þeir gátu látið vita af sér í gegn um talstöð og var togarinn Egill Skallagrímsson næst þeim og sigldi á staðinn. Skipverjar á Gunnvöru biðu í flakinu,enda ládauður sjór þar til þeim var bjargað um borð í Egil,enda ekkert að sækja í landi.Ekki var gerð tilraun til að draga skipið út þótt það væri óskemmt langt fram á vetur,enda stóð það í sandinum.
Það þarf að taka meira innan úr Þórði til að fá meiri upplýsingar.

 

Print Friendly, PDF & Email

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA