Uppfært 5.ágúst 2019
Neðanritað er endurskrifað eftir gulnuðu ljósriti sem ritstjóra barst. Því miður hefur ekki tekist að fá upplýst hver átti og lét ritsjóra fá þetta skjal – það kemur vonandi seinna. Skjalið er, eftir bestu vitund, skrifað orðrétt eftir ljósritinu og með upphaflegu stafsetningunni. Þarna er Betúel Betúelsson að leigja hálfa jörðina Tungu í Fljóti til Ólafs Friðbjarnarsonar. Mörg athyglisverð atriði, sem rétt er að halda til haga, koma þarna fram.

Byggingasamningur
1: Ég Betúel Betúelsson frá Höfn í Sljettuhreppi, byggi bóndanum Ólafi Friðbjarnarsyni Látrum í Aðalvík, eptir beiðni hanns; 1/2 – hálfa eignarjörð mína Túngu í Fljóti sömu sveitar, frá fardögum; 1937 til fardaga 1942, með þeim skilmálum sem hjer skal greina.
2: Leigutaki skal hafa hálflenduna sjer til afnota, sem sje, hálfa grasnyt túns og engja, mótak og annað sem almenn heimilis þörf krefur – jörð og jarðeiganda að skaðlausu, þar með talin hálf hús sem þar nú eiga að vera fyrir hendi, – svo sem Baðstofuhús, Skúr úr timbri, hlaða, fjós, fjárhús og Hesthús, votheysgrifjur, Túngirðing (lbr.áá) , enda sje leigutaka skilt að halda mannvirkunum vel við, ákveðinn ábúðartíma, jarðeiganda að kostnaðarlausu.
3: Trjáreka viður heyrir ekki til sjer nytja leiguliða, heldur eingöngu til viðhalds og endurbóta húsa- og girðingum um tún hjer nefndrar jarðar, – þó er undan skilið frá þessu, smáviðar kefli sem eru fyrir neðan þrjú fet á lengd, – Enda sje leiguliðum skilt að bjarga öllu frá sjó, sem að landi ber.
4: Hjer um ræddum jarðarparti fylgja tvær leigufærar ær og tekur leigutaki þær í næstkomandi fardögum sjer til nytja og umsjónar meðan ábúðartíminn yfir stendur en jarðeiganda greiðist venjuleg árleg leiga af þeim, þar til leigutaki fer af jarðarpartinum; – þá koma þær til skila í leigufæru standi, ásamt öðru sem hjer ofar um ræðir. – En ef jörðin selst þá sannvirði fylgja ærnar með.
![IMG_3770[1]](https://i0.wp.com/www.fljotavik.is/wp-content/uploads/2016/02/IMG_37701.jpg?resize=165%2C300)
5: Landsleiga af hálflendunni er: 40- Fjörutíu kr., kúgildlega, 10,- Tíu kr., Samtals: 50,- fimmtíu krónur, er greiðist í peningum fyrir lok Október ár hvert, meðan ábúðar tímin stendur – annað kvort beint til mín, eða Sölva sonar míns.
6: Skatta alla og skildur greiði leiguliði og af jarðarpartinum – svo sem Tekju og eignarskatt, útsvar og önnur obinber gjöld; sem hvert útaf fyrir sig, ekki heyrir jarðreiganda að greiða. Loks ber leiguliða að halda áfram girðingu um tún bílisins, ásamt sambílis manni sínum þar, svo það komi í veg fyrir ágáng fjenaðar og stórgripa. Þá er og hægra að verja hey í þurrkun. – Láti leiguliði undanfalla að vinna áskildar jarðarbætur að einhverju leiti eða öllu um eitt ár, þá varðar það útbyggingu – ef eigi næst samkomulag því til bóta.
7: Brjóti leiguliði samnínginn í nokkru atriði, smáu eða stóru, þá varðar það útbyggingu.
8: Að öðru leiti fer ábúðarsamníngur þessi að öllu eftir lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða – frá 12.janúar 1884. – Tvö samhljóða frumrit eru gerð af samníngi þessum og heldur sinn aðili hverju. Til staðfestu nöfn vor undirrituð í viðurvist tveggja vitundar votta.
Þín ummæli eru vel þegin ….